Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri og Jónas Sigurðsson og áhöfnin á Húna eru meðal tíu verkefna sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar, viðurkenningar til framúrskarandi menningarverkefna á starfssvæði Byggðastofnunar.
Metfjöldi umsókna var í ár til Eyrarrósarinnar en fjörutíu og sex fjölbreytt verkefni víða um land sóttu um. Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.
Þann 23. janúar næstkomandi verður sagt frá því hvaða þrjú verkefni hljóta viðurkenningu. Eitt þeirra hlýtur að lokum Eyrarrósina, 1.650.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands en tvö verkefni hljóta 300.000 króna viðurkenningu og flugferðir frá Flugfélagi Íslands.
Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri er árleg sönghátíð sem haldin verður í tuttugasta og fjórða sinn dagana 27. – 29. júní í sumar. Á hátíðinni kemur saman tónlistarfólk víða af landinu og er hún ómissandi vettvangur bæði fyrir heimamenn og ferðamenn í Skaftárhreppi sem fá tækifæri til að njóta lifandi flutnings klassískrar tónlistar listamanna í fremstu röð. Hátíðin leggur jafnframt rækt við tónlistaruppeldi yngstu kynslóðarinnar með tónlistarsmiðju fyrir börn.
Áhöfnin á Húna er samstarfsverkefni tólistarmanna og Hollvina Húna II. Áhöfnin á Húna vakti mikla athygli síðastliðið sumar þegar Húni II sigldi hringinn í kringum landið. Haldnir voru 16 tónleikar í sjávarbyggðum landsins. Ríkisútvarpið fylgdi siglingunni eftir með beinum útsendingum frá tónleikum áhafnarinnar sem og sjónvarps– og útvarpsþáttagerð þar sem landsmönnum öllum gafst tækifæri til að fylgjast með ævintýrum áhafnarinnar. Húni II hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir áhugavert starf í menningartengdri ferðaþjónustu og er samstarf hans við tónlistarfólkið í Áhöfninni á Húna liður í að efla það enn frekar.
Eyrarrósin verður afhent með viðhöfn laugardaginn 15. febrúar næstkomandi í Menningarmiðstöðinni Skaftelli á Seyðisfirði. Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin að vanda.
Auk Kammertónleikanna og Húna eru þessir aðilar tilnefndir:
Verksmiðjan Hjalteyri
Hammondhátíð á Djúpavogi
Skrímslasetrið á Bíldudal
Tækniminjasafn Austurlands
Reitir á Siglufirði
Listasetrið Bær í Skagafirði
Kómedíuleikhúsið
Þjóðahátíð Vesturlands