Húsfyllir var á öðru menningarkvöldi Árborgar í október sem fram fór í gær, 12. október, á afmælisdegi Páls Ísólfssonar, tónskálds frá Stokkseyri.
Kvöldið var haldið á Orgelverkstæði Björgvins Tómassonar í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri.
Tónlist skipaði stóran sess í dagskránni enda verið að minnast tónskálds og voru flutt nokkur lög eftir Pál. Söngnemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga sungu undir stjórn Esterar Ólafsdóttur og síðan var komið að barna- og unglingakór Getsemanekirkju í Berlín sem er í heimsókn á Íslandi þessa dagana. Kórinn söng nokkur lög og hlutu mikið lofaklapp fyrir.
Í lok dagskrár var gengið út og fylgst með þegar skipaðir vitaverðir, þeir Guðmundur Gestur Þórisson og Jóhann Hallur Jónsson tendruðu líkan af Knarrarósvita sem stendur á bryggjusviðinu fyrir framan orgelsmiðjuna.
Starfsmannafélag Hólmarastarhússins og Hrútavinafélagið Örvar buðu síðan gestum upp á kaffi og pönnukökur. Undir kaffinu spilaði hljómsveit Getsemanekirkju og dansaði yngri kynslóðin af miklum móð í takt við tónlistina.