Hvað er líkt með herstöð á Straumnesfjalli á Ströndum og gróðurhúsi á Suðurlandi? Kannski að báðir staðir eru yfirgefnir? Hvor á sinn mátann.
Ljósmyndasýningarnar Straumnes og Þar sem rósir spruttu í snjó standa nú yfir í Þjóðminjasafni Íslands og eru þær hluti af Ljósmyndahátíð Íslands 2022.
Sunnudaginn 27. mars verða ljósmyndararnir Marinó Thorlacius og Vassilis Triantis á staðnum á milli klukkan 14 og 16, ásamt Ágústu Kristófersdóttur, framkvæmdastjóra safneignar Þjóðminjasafns Íslands. Sýningarstjóri beggja sýninga er Kristín Halla Baldvinsdóttir.
Marinó Thorlacius
Straumnesfjall stendur milli Aðalvíkur í suðri og Rekavíkur í norðri og er nú hluti af friðlandi Hornstranda. Þar byggði og starfrækti bandaríski herinn ratsjárstöð á tímum kalda stríðsins. Hreinsun á fjallinu og nærliggjandi svæðum var framkvæmd árið 1991 í samstarfi hersins og Íslendinga þó enn megi sjá greinileg ummerki um þessa starfsemi á fjallinu.
Marínó deilir hér með okkur sýn sinni á það sem enn stendur af ratsjárstöðinni við ysta haf. Eru þetta ummerki um mengunarslys eða eru þetta menningarsögulegar rústir?
Vassilis Triantis
Þar sem rósir spruttu í snjó er sýning á ljósmyndum Vassilis Triantis. Sýningin er samsett úr ljósmyndum Vassilis sjálfs og myndum úr fjölskyldualbúmi tengdaforeldra hans, sem lengi voru rósabændur í Laugarási í Biskupstungum. Vassilis Triantis er fæddur í Grikklandi en býr og starfar í Hollandi. Vassilis hefur tekið þátt í sýningum víða og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín. Síðasta viðurkenningin er tilnefning til verðlauna hjá Belfast Photo Festival 2022, fyrir bók sína sem er samnefnd sýningunni og mun Vassilis árita bók sína við tækifærið.
Þetta er í sjötta sinn sem Ljósmyndahátíð Íslands er haldin en að venju er hún annað hvert ár. Á hátíðinni sýna jafnt erlendir sem innlendir ljósmyndarar verk sín en markmið hátíðarinnar er að vinna að framþróun ljósmyndunar sem listforms. Þjóðminjasafn Íslands er einn samstarfsaðila hátíðarinnar í ár og er viðburðurinn einmitt haldinn á lokadegi hennar.