Hveragerðisbær hefur ákveðið að bjóða íbúum bæjarins (og öllum öðrum sem vilja njóta) uppá „Hvergerðingar syngja inn jólin“ í beinu streymi frá Skyrgerðinni næsta föstudagskvöld, 18. desember kl. 20:30.
„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir aðkomu Hveragerðisbæjar að þessu verkefni. Mér finnst Hvergerðingar syngja inn jólin falleg og notaleg hefð. Mín kæra vinkona Halldóra G. Steindórsdóttir viðraði þessa hugmynd við mig fyrir nokkuð mörgum árum og síðan þá hafa þessir árlegu jólatónleikar okkar hérna í Hveragerði átt hug minn allan í hverjum desembermánuði. Það hefði verið ansi leiðinlegt að sleppa þessu í ár,“ segir Heimir Eyvindarson, sem hefur verið tónlistarstjóri verkefnisins frá upphafi.
Dagskráin verður einkar glæsileg, en flytjendur að þessu sinni eru Magni Ásgeirsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Lay Low, Rakel Magnúsdóttir, Berglind María Ólafsdóttir, Anna María Sigurbjörnsdóttir, Hljómsveitin Á móti sól, Elín Hrönn og Hrefna Ósk Jónsdætur, Elva Rún Pétursdóttir og Arnar Gísli Sæmundsson.
Hljómsveit kvöldsins er skipuð Halldóri Smárasyni, Heimi Eyvindarsyni, Stefáni Þórhallssyni, Magna Ásgeirssyni og Sigurgeir Skafta Flosasyni. Sérstakur heiðursgestur hljómsveitarinnar verður saxófónsnillingurinn Kristinn Svavarsson sem hefur blásið saxófónsóló í mörgum þekktustu jólalögum Íslandssögunnar. Kynnir er Bessi Theodórsson.