Hvernig staður er Listasafn Árnesinga?

Þriðja og síðasta umræðudagskráin í tengslum við sýninguna „Að þekkjast þekkinguna“ fer fram í Listasafni Árnesinga kl. 15 í dag.

Að þessu sinni er spurt hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið? Inngangserindi flytur Skúli Sæland fyrir hönd Upplits – menningarklasa Uppsveita Árnessýslu. Hann mun skoða og skilgreina nærsamfélagið, tengsl þess við hið stærra samfélag og hvernig safnið getur virkað sem gátt milli nær- og fjærsamfélagsins.

Inngangserindi flytja einnig sýningarstjórarnir Ingirafn Steinarsson og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir. Þau munu gera grein fyrir núverandi sýningu og fjalla um hlutverk sýningarstjóra og miðlunarþátt safnsins. Ingirafn er starfandi myndlistamaður, Ólöf Gerður er mannfræðingur og forstöðumaður Rannsóknar-þjónustu Listaháskóla Íslands og Skúli Sæland er sagnfræðingur og meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun og safnafræði.

Núverandi sýning, „Að þekkjast þekkinguna“, sýning fimmtán samtímalistamanna sem allir takast á við samtímaviðfangsefni og varpa ljósi á tengsl þekkingar og myndlistar.

Sýningin mun standa til 11. júlí og er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18. Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Fyrri greinDramatík á lokamínútunum
Næsta greinGætu fengið sekt uppá hálfa milljón