Hljómsveitin Dúndurfréttir verður með stórtónleika í Hvítahúsinu á Selfossi laugardagskvöldið 6. júní næstkomandi.
Þetta er fyrsti viðburður Hvítahússins eftir Covid samkomubann og má segja að tónleikaþyrstir Sunnlendingar hafi þurft að bíða ansi lengi.
Brot af því besta
Dúndurfréttir munu spila brot af því besta úr klassíska rokkinu, allt gamla góða rokkið frá Led Zeppelin, Pink Floyd, Uriah Heep og Deep Purple verður á sínum stað en einnig lög víða að úr þessum klassíska rokkgeira. Mjög fjölbreytt blanda af allskonar rokki, mjúkt og hart þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Hljómsveitina skipa Matthías Matthíasson, Pétur Örn Guðmundsson, Einar Þór Jóhannsson, Ólafur Hólm og Ingimundur Óskarsson.
200 miðar í boði
Tónleikarnir hefjast kl. 21 og opnar húsið kl. 20, einungis 200 miðar eru í boði og eru áhugasamir beðnir um að tryggja sér miða í tíma. Miðasala er hafin á Tix.is