Um helgina gefst fólki tækifæri á að ganga á hljóðið í völundarhúsi úr trjágróðri á garðyrkjustöðinni Engi í Laugarási í Biskupstungum.
Þar munu söngkonan Tinna Sigurðardóttir, Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir blokkflautuleikari og Svanur Vilbergsson gítarleikari flytja íslensk og erlend lög um garða og gróður bæði laugardag og sunnudag kl. 15 í miðju völundarhússins.
Tónleikagestir verða að þræða leiðina inn að völundargarðinum miðjum, bókstaflega með því að ganga á hljóðið.
Lögin sem flutt verða eru af ýmsum toga en eiga það sameiginlegt að fjalla um jurtir, grænmeti og gróður sem vex á garðyrkjustöðinni. Hægt verður að sjá, snerta, lykta af og bragða á jurtunum sem sungið er um og því er um að ræða sannkallaða veislu fyrir skilningarvitin.
Tríóið hefur ekki spilað sem slíkt áður að sögn Svanhvítar Lilju sem er dóttir Ingólfs og Sigrúnar á Engi. „Okkur langaði að halda einhverskonar tónleika saman og datt þetta í hug, og vonandi gengur þetta upp vel,“ segir hún.
Tónleikarnir eru styrktir af Menningarráði Suðurlands og það er ókeypis inn.
Á Engi er starfræktur bændamarkaður með lífrænt grænmeti og ber og er þetta síðasta helgin sem hann er opinn í sumar.