Anna Margrét Káradóttir, leik- og söngkona, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2024 hjá þér? Heilt yfir var þetta ár bara alveg virkilega gott! Nóg að gera í listinni og þar þrífst ég best svo ég get ekki kvartað! Ég átti líka fullt af góðum samverustundum með fjölskyldu og vinum sem er alltaf gott í hjartað.
Hvað stóð upp úr á árinu? Ég verð að nefna Iceguys ævintýrið, fórum í tökur á seríu tvö sem var svo sýnd núna í desember og svo er bara þriðja serían á leiðinni og alltaf fær Una öryggisvörður að vera með. En ætli landinn eigi ekki inni afsökunarbeiðni hjá mér eftir að ég jinxaði sumrinu með sumarauglýsingunni hjá Byko þar sem ég spurði í sífellu hvað sumar væri, hefði betur spurt hvar sumarið væri. Hahaha! Sorrý með mig elskurnar.
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Heyrðu það var Sólblóm með Bríeti. Þetta lag nær mér alveg inn að beini, elska þetta lag.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Borða góðan mat, vera í góðra vina hópi, horfa á Skaupið, skála fyrir nýju ári og dansa doldið duglega inn í nóttina. Svo þarf að vera nóg af glimmeri!
Hvað gerðir þú um áramótin? Við vinirnir snæddum og skáluðum saman eins og við gerum alltaf um áramótin, ég er mikil áramótakona! Við borðum nokkur saman og svo bætist alltaf í hópinn þegar líður á kvöldið, fleiri bætast í hópinn þegar Skaupið byrjar og enn fleiri þegar miðnættið nálgast. Við erum á besta stað í miðbænum með útsýni í allar áttir yfir borgina og þar á meðal útsýni að Hallgrímskirkju þar sem öll rakettulætin eru á miðnætti, svo það er oft voða fallegt að horfa yfir miðborgina, fylgjast með niðurtalningunni framan á Hörpu, skála með vinum sínum og knúsa og kyssa alla gleðilegt árið.
Hvað var í matinn á gamlárskvöld? Það var bæði kalkúnn og hnetusteik, ég er nefnilega í grænmetisdeildinni. En svo er það orðin hefð að ég geri fræga fjölskylduréttinn fyrir hópinn, frölluréttinn, sem er alveg agalega gott meðlæti með hátíðarmatnum.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Ég er löngu hætt því, en ég á mér gildi sem ég held fast í, sem snúa aðallega að því hver maður er sem manneskja og hvernig manneskja maður vill vera.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Bara alveg ótrúlega vel! Hlakka til að hitta vinkonurnar í janúar og spá fyrir um árið, það er orðin hefð hjá okkur stelpunum að leggja tarot fyrir árið. Svo tekur maður nú bara út úr því það sem manni langar að taka með sér inn í árið.