Innspýting í hagkerfi listafólks

Góð stemmning var á menningar og styrkjahátíð Hljómlistarfélags Hveragerðis sem tæmdi sjóði sína í þriðja sinn í gær og úthlutaði til listafólks í Hveragerði.

Alls voru veittir styrkir að upphæð 600 þúsund krónum og reiknast formönnum félagsins til að á næstu styrkjahátíð hafi félagið náð að dæla hátt í þremur milljónum króna út í hagkerfi landsins, menningu og góðgerðarmálum til hagsbóta.

Fimm styrkir voru veittir ungu og efnilegu tónlistarfólki í bænum – og kirkjukórnum. Grunnskólanemarnir Birta Hörn, Sædís og Anna María skipa tríó sem sigraði söngvakeppni félagsmiðstöðva á Suðurlandi, Samsuð, á dögunum og fengu þær stúdíótíma frá Hljómlistarfélaginu.

Kristín Arna Hauksdóttir, söngkona, fékk styrk vegna söngnáms í Kaupmannahöfn og Hafsteinn Þór Auðunsson, leiklistarnemi í London, fékk sömuleiðis styrk.

Fleiri styrkþegar voru á erlendri grundu því þeir Sindri Kárason og Jón Steinar Jónsson nema upptökufræði í Manchesterborg og þeir hlutu einnig styrk.

Kirkjukór Hveragerðis og Kotstrandarprestakalls fékk síðasta styrkinn og er hann ætlaður til upptöku á söng kórsins.

Styrkjahátíðin var létt og skemmtileg og dróst ótrúlega lítið á langinn þrátt fyrir þann hæfileika eins formanna félagsins að koma fyrir sig orði. Boðið var upp á kaffiveitingar og að sjálfsögðu hákarl og brennivín. Styrkþegar stigu á stokk og kór eldri borgara, Hverafuglarnir, flutti einnig nokkur lög. Einnig stigu glímumenn úr HSK á svið og sýndu íslenska glímu.

Nánar verður fjallað um þessa menningarveislu í næsta tölublaði Sunnlenska.

Fyrri grein„Við vorum eins og geimverur“
Næsta greinHamarskonur frábærar gegn Keflavík