Verk myndlistarkonunnar Michelle Bird, sem býr í Fljótshólum í Flóahreppi, má nú sjá víða á Selfossi.
Í Listagjánni í Bókasafni Árborgar sýnir hún vatnslitaverk undir heitinu Hesturinn, stelpan og hálendið og fyrir páska voru verk eftir hana sett upp í Sundhöll Selfoss. Nýlega hóf Michelle svo störf í Gallerí Listaseli í miðbæ Selfoss og þar sýnir hún einnig málverkin sín.
Michelle hefur búið á Íslandi undanfarinn ellefu ár en hún flutti í Fljótshóla ásamt unnusta sínum fyrir ári síðan. Hún hefur málað í meira en 40 ár og sýnt í galleríum og söfnum um alla Evrópu og Bandaríkin.
„Ég bjó í Borgarnesi þar sem ég var með vinnustofu og kenndi myndlist og listnám í menntaskólanum. Nú er ég með vinnustofu í Fljótshólum, þar sem ég mála, teikna og kenni. Fólk kemur til að sitja fyrir á andlitsmyndum og ég kenni líka myndlist fyrir hópa nemenda á heimili okkar frá skólum í gegnum Atlas-skólann. Einnig sérhæfi ég mig í hópþróunartímum fyrir fullorðna,“ segir Michelle í samtali við sunnlenska.is.
Þess má geta að hún mun halda kennslustund í myndlist á Bókasafni Árborgar á Selfossi þann 30. apríl næstkomandi.

„Það er annasamt ár framundan hjá mér. Næsta einkasýning er í Litla galleríinu í Hafnarfirði og í júní mun ég sýna myndlist í Listamiðstöðinni Bæ á Hofsósi. Áhersla mín síðastliðið ár hefur verið á íslenska náttúru. Stúlkan, hesturinn og hálendið er yfirskrift listar minnar,“ segir Michelle en fræðast má um list hennar á heimasíðu hennar.
Þessi öfluga myndlistarkona er líka í stjórn Nýrra Íslendinga í Félagi kvenna í atvinnulífinu, FKA. Í fyrra skipulagði hún FKA viðburð fyrir kvenkyns frumkvöðla sem nefndist Halló Selfoss og framundan er myndlistarviðburður með FKA og Nýjum Íslendingum. Þá hefur Michelle tekið þátt í mörgum góðgerðarverkefnum sem tengjast list og kynnir hún þær á heimasíðunni Arthouse Borgarnes.