Selfyssingurinn Steinunn Birna Guðjónsdóttir hefur vakið mikla athygli fyrir sérlega fallega veggplatta sem hún hefur hannað og búið til. Veggplattarnir kallast Villingar og eru steyptir eftir íslenskum blómum.
„Blóm hafa alltaf heillað mig og hef ég sérstakt dálæti á þeim sem vaxa villt úti í náttúrunni. Ég vil geta umkringt mig blómum allt árið um kring. Ég lærði aðferð við að steypa eftir blómum síðasta vetur og hef verið að prófa mig áfram með mismunandi blóm,“ segir Steinunn í samtali við sunnlenska.is.
„Fyrst um sinn var ég að kaupa mér blómvendi til að steypa eftir en nú í sumar hef ég getað farið í langa göngutúra og tínt mér blóm á leiðinni til að steypa eftir. Þannig þróaðist þessi lína blómaplatta sem ég kýs að kalla Villinga. Nú þegar farið er að hausta og blómin að visna hugga ég mig við steingerðu blómin sem munu viðhalda sumrinu upp á vegg heima.“
Skemmtilegt ferli
Steinunn byrjaði að prófa sig áfram með gifsið síðastliðinn vetur. „Þetta er búið að vera skemmtilegt ferli, að móta hvern platta fyrir sig og ég myndi segja að þetta væri í raun hringlaga ferli sem er í sífelldri mótun og útkoman, eða afurðin, er aukaatriði.“
„Ég hef boðið dætrum mínum tveimur að vera með í ferlinu og hafa þær gjarnan komið heim úr göngutúrum með blómvönd handa mér til að steypa platta úr. Blómin hafa misjafna uppbyggingu, áferð og þéttleika og henta því misvel til að steypa eftir. Ég hef verið dugleg að setja inn myndir og myndbönd af ferlinu inn á Instagram,“ segir Steinunn.
Gleymmérei í uppáhaldi
Villingunum er best lýst sem hvítum, hringlaga veggplöttum úr gifsi. „Á þeim sést móta fyrir alls konar blómum og stráum sem við höfum fundið í göngutúrum okkar í sumar. Flest blómin eru tínd á Selfossi, einhver á Eyrarbakka og einnig í Þrastarskógi. Plattarnir eru í nokkrum stærðum, frá 12-22 cm í þvermál. Þeir eru handgerðir og bera þess merki, enginn þeirra er alveg fullkomlega hringlaga, heldur er formið á þeim meira náttúrulegt.“
Steinunn segir að hún haldi ósjálfrátt meira upp á sum blóm en önnur. „Gleymmérei er í algjöru uppáhaldi hjá mér, til marks um það lét ég flúra hana á hendina á mér. Ég held líka mikið upp á valmúa, krónublöðin eru svo fíngerð og falleg. Svo þykir mér fjalldalafífillinn ótrúlega fallegur, litirnir í hjartalaga krónublöðunum eru sjúklega fallegir og áferðin eru svo mjúk, minnir helst á flauel. Þetta eru samt ekki blóm sem koma best út í plöttunum, þau gefa ekki mikla áferð. Þau blóm sem rata oftast á platta hjá mér hafa verið gleymmérei, maríustakkur, hundasúra, gulmaðra og kúmen í blóma. Það er eitthvað við áferðina á þeim sem kemur sérlega vel út í plöttunum.“
Ferlið allt ákveðin hugleiðsla
Innblásturinn að veggplöttunum fær Steinunn beint frá íslenskri náttúru. „Íslenska flóran er í aðalhlutverki í plöttunum mínum. Ég elska að fá mér göngutúra með góða hljóðbók í eyrunum. Þykir eflaust frekar furðuleg sjón að sjá fullorðna konu, eina úti á gangi seint um kvöld með blómvönd í hönd skimandi eftir fleiri blómum til að bæta í vöndinn en þetta er ákveðin hugleiðsla fyrir mig. Bæði að finna blómin sjálf og svo að steypa plattana, en það ferli er bæði tímafrekt, subbulegt og plássfrekt. Ég hef hingað til verið að steypa heima en er að velta fyrir mér að færa vinnuaðstöðuna yfir í Húm Stúdíó þar sem plattarnir eru seldir núna.“
Steinunn segir að verkin hennar séu í stöðugri mótun. „Ég sé fyrir mér að vinna meira með náttúrulegri efnivið en gifsið. Ég er að prófa mig áfram í að mala niður skeljar og blanda þeim við festi og steypa blómaplatta úr því drullumalli. Einnig hef ég verið að prófa steypa skeljar og kuðunga í plattana ásamt blómum úr fjörunni. Nú síðast var ég að steypa berjalyng í platta, það kom mjög skemmtilega út, Villingur í berjamó,“ segir Steinunn að lokum.