Áttunda tölublað myndritsins Séð og jarmað kemur út við sólarupprás í fyrramálið. Ætlunin var að gera hlé á útgáfunni en frá því var horfið vegna gríðarlegs jarms.
Öldungaráð Hrútavinafélagsins Örvars, hvar ráðið hefur aðsetur í Shell-Skálanum á Stokkseyri og víðar eftir verkefnum, hefur gefið út myndritið – „Séð og jarmað“ frá því í byrjun þorra á miðjum vetri og fram til heyanna, alls sjö tölublöð.
Ætlunin var að taka frí fram til þorra en gríðarlegt jarm hefur verið eftir myndritinu bæði í sveitum landsins sem og bæjum og borgum.
Vegna þessara miklu vinsælda hefur útgáfan verið sett í gang að nýju. Áttunda tölublaðið, Gormánaðarblað – nú í byrjun vetrar, rann út úr prentsmiðjunni Prentmet á Selfossi fyrir stundu.
Myndritið – Séð og jarmað er sem fyrr í einu eintaki og er staðsett í Shell-Skálanum á Stokkseyri. Dreifing hefst við sólarupprás í fyrramálið og verður lokið kl. 9:00.
Sjón er sögu ríkari eins og venjulega.