Í vikunni kom út platan „Húsið sefur“, en það er fyrsta plata jazztónlistarmannsins Leifs Gunnarssonar, sem fæddur er og uppalinn á Selfossi.
„Ég var að fikta við að spila á gítar og rafbassa sem unglingur og tók þátt í léttsveit sem Stefán Þorleifsson stjórnaði. Þannig ég einhvern vegnn slysaðist pínu inn í þetta,“ segir Leifur. Í framhaldinu ákvað hann að hefja nám í tónlistarskóla FÍH. „Þetta var svona forvitni sem óx eftir því sem ég lærði meira. Fyrsta jazzplatan sem ég eignaðist var Kind of blue með Miles Davis en í fyrstu hlustaði ég mest á rafmagnaðan jazz.“
Leifur hóf að vinna plötuna á meðan hann var í framhaldsnámi í Danmörku, þar sem hann samdi tónlist við íslensk ljóð. „Ég var svona að vinna í því í hjáverkum alla skólagönguna. Stundum tókst mér að nota þessi lög í skólaverkefnum, til dæmis útsetningum. Eftir að ég flutti heim var þetta einhvern veginn næsta skref, að koma þessu í einhverskonar varðveislu og fara svo að einbeita sér að einhverju nýju,“ segir Leifur.
Hann segist sækja innblástur í hversdagslega hluti. „Hvað plötuna varðar þá leita ég undantekningalaust í ljóðin sem ég skrifa tónlistina við, ég reyni að leita eftir einhverri tilfinningu í textanum en einnig getur einstakt orð kallað á nýja og spennandi hljóma og þannig sent tónlistina á ókannaðar slóðir,“ segir hann.
Aðspurður segir Leifur að hann sé ekki viss um hvort ungt fólk hlusti mikið á jazztónlist. „Kannski er þetta algjör tímaskekkja. Ég hef allavega tileinkað mér þetta listform, bæði sem handverk og spunaform. Jazz er samnefnari fyrir svo margt, og því er erfitt að segja hvað unga fólkið fílar. Ég tek eftir miklum áhuga ungs fólks á sjálfboðastarfi Jazzhátíðar og því trúi ég því að það sé til ungur hlustendahópur.“
Leifur hélt útgáfutónleika á Jazzhátíð í Reykjavík í gærkvöldi en hann stefnir á að flytja þessa tónlist á heimaslóðum með haustinu.