Föstudaginn 9. ágúst kl. 20 munu Lars Jansson píanóleikari, Paul Svanberg trommuleikari, Sigurður Flosason saxófónleikari og Gunnar Hrafnsson kontrabassaleikari flytja djass á tónleikum í Listasafni Árnesinga.
Lars Jansson er einn fremsti djass-píanisti Svía og mjög stórt nafn í djassheimi Norðurlanda. Þá er hann einnig virtur sem tónskáld. Lars er fæddur og uppalinn í Svíþjóð og nam tónlist í Gautaborg en árið 1998 varð hann fyrsti djass-prófessorinn við Tónlistarháskólann í Århus í Danmörku.
Það er upplifun að hlýða á Lars á tónleikum; hann er aðgengilegur tónlistarmaður sem spilar þannig að allir hrífast. Sonur hans Paul er, þrátt fyrir ungan aldur, orðinn einn af þekktari slagverksmönnum Svía og fastur liðsmaður í tríói föðurins. Lars hefur einnig fengið til liðs við sig tvo frábæra íslenska tónlistarmenn þá Sigurð Flosason saxófónleikara og Gunnar Hrafnsson kontrabassaleikara svo útlit er fyrir dúndur tónleika sem enginn djassunnandi ætti að missa af.
Aðgangseyrir kr. 1500.-