Jens sveitarlistamaður Rangárþings eystra 2024

Jens ásamt Christiane L. Bahner, formanni markaðs- og menningarnefndar og Sigurmundi P. Jónssyni, markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins. Ljósmynd/Rangárþing eystra

Jens Sigurðsson, gítarleikari og tónlistarkennari, er sveitalistamaður Rangárþings eystra árið 2024. Viðurkenningin var afhent í tíunda sinn á Kjötsúpuhátíðinni um síðustu helgi.

Jens er menntaður gítarkennari og kenndi í Tónlistarskóla Rangæinga í 25 ár. Hann hefur þannig miðlað þekkingu og áhuga til ungrar kynslóðar í áratugi. Hann hefur spilað í fjölmörgum hljómsveitum og þar má helst nefna hið geysivinsæla Hjónaband sem stofnað var 1995, gaf út þrjá diska og nokkrar smáskífur, þar sem Jens semur meðal annars lögin.

Önnur þekkt hljómsveit sem kennd er við Jens er hljómsveitin Vinir Jenna sem skipuð er tíu hressum mönnum úr Rangárþingi. Þá hefur Jens einnig verið ötull í kórastarfi á svæðinu og sungið með meðal annars með Karlakór Rangæinga, Samkórnum og Öðlingunum. Hann hefur einnig spilað undir á gítar með Barnakór Hvolsskóla og fjölda annarra kóra og hljómsveita.

Fyrri greinÓlympíufari þakkar fyrir stuðninginn
Næsta greinHaustfundur Leikfélags Selfoss