Á morgun, sunnudaginn 23. október klukkan 20:00, mun Leikfélag Selfoss flytja leiklestur upp úr skáldsögunni Jöklaleikhúsið eftir Steinunni Sigurðardóttur í Litla leikhúsinu við Sigtún.
Tíu reynsluboltar úr leikfélaginu hafa síðustu tvær vikurnar unnið að því að leikgera og æfa skemmtilega kafla upp úr bókinni og munu túlka stóran hluta af þeim stórskemmtilegu karakterum sem koma fyrir í sögunni.
Jöklaleikhúsið fjallar um áhugaleikfélag í þorpinu Papeyri sem tekur þá djörfu ákvörðun að setja upp Kirsuberjagarðinn eftir Anton Tsjekov með karlmenn í öllum hlutverkum. Þetta er gert að undirlagi hins stórtæka kvótagreifa, Vatnars Jökuls – sem hyggst reisa Jöklaleikhús uppundir jökli, Kirsuberjagarðinum og Antoni Tsjekov til heiðurs. Í þrjú ár snýst lífið í þorpinu um leikhúsið og uppsetninguna, og verður mörgum örlagavaldur.
Efni skáldsögunnar er Leikfélagi Selfoss að hluta til kunnuglegt þar sem það setti upp Kirsuberjagarðinn árið 2016 í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar og fékk mikið lof fyrir. Meirihluti leikara í leiklestrinum sem nú stendur fyrir dyrum lék í sýningunni 2016 og kemur því að Kirsuberjagarðinum á ný – en um leið úr annarri átt.
Skáldaga Steinunnar hverfist að mestu um íbúa Papeyrar og skrautlegt ferlið frá fyrstu hugmynd um uppsetninguna fram að frumsýningu. En sú atburðarás er sannarlega mun viðburðaríkari, skondnari og óhefðbundnari en uppsetning Leikfélags Selfoss á Kirsuberjagarðinum.
Mikil vinna hefur verið lögð í að búa til leiklestrarhandrit úr Jöklaleikhúsinu, en þessi reynslumikli hópur hefur náð að skapa mjög lifandi og skemmtilega leikræna mynd upp úr völdum köflum bókarinnar.
Jöklaleikhúsið er ein af tólf skáldsögum Steinunnar og þykir vera sú þar sem kímnin svífur hæst yfir vötnum. Einnig hefur Steinunn gefið út fjölda ljóðabóka, smásögur og leikrit fyrir útvarp og sjónvarp en auk þess hefur hún þýtt mikinn fjölda bóka. Fyrsta bók hennar var ljóðabókin Sífellur sem kom út 1969 og nýjasta bók hennar er einnig ljóðabók sem kom út síðastliðið vor og heitir Tíminn á leiðinni.
Frítt er á leiklesturinn hjá Leikfélagi Selfoss, öll velkomin meðan húsrúm leyfir.
Viðburðurinn er hluti af dagskrá Menningarmánaðarins október í Sveitarfélaginu Árborg.