Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir á Selfossi svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Klárlega meiri jólaálfur. Elska jólin og allt sem þeim tengist. Í lok október held ég í mér að byrja ekki að skreyta og spila jólalög. Þann 1. nóvember byrja ég svo af fullum krafti enda full ástæða til að gera eins mikið og hægt er úr svona skemmtilegum viðburði eins og jólin eru.
Uppáhalds jólasveinn? Verð að segja Stúfur því ég var alltaf látinn leika hann í skólanum í gamla daga, tengi klárlega mest við hann.
Uppáhalds jólalag? Fyrsta jólalagið sem ég byrja alltaf að spila er It’s Beginning to Look a Lot Like Christmas með Bing Crosby, finnst það alveg ekta en lagið með Gunna Óla, Komdu um jólin finnst mér líka einstaklega fallegt og verð ég að segja að það sé uppáhalds.
Uppáhalds jólamynd? The Holiday! Elska þessa mynd, svo rómantísk og brakandi bresk eitthvað og hátíðleg. En okkur fjölskyldunni finnst rosa gaman að horfa á Christmas Vacation, Albert maðurinn minn hlær alltaf svo rosalega að við endum öll skellihlæjandi.
Uppáhalds jólaminning? Fyrstu jólin eftir að Daníel, fyrsta barnið okkar, var komin með vit á því að vera spenntur og njóta jólanna. Ætli hann hafi ekki verið 2 og hálfs. Mér fannst svo gaman að upplifa jólin í gegnum hann og ég var ekkert minna spennt en hann. Nú á ég fjögur börn og jólin snúast klárlega um þau og upplifa hátíðarnar með þeim.
Uppáhalds jólaskraut? Allt jóladótið sem ég hef fengið frá ömmu Ellu er í miklu uppáhaldi. Hún handmálaði á postulín og mamma hefur verið dugleg að gefa mér allskonar djásn frá henni sem er svo fínt að ég tími varla að nota það.
Minnistæðasta jólagjöfin? Albert maðurinn minn gaf mér ein jólin risastórt málverk sem hann hafði látið mála eftir mynd sem hann tók af mér. Fyrr um árið höfðum við hitt hollenska listakonu í Barcelona sem málaði svo flottar andlitsmyndir og hann hafði svo seinna samband við hana og fékk hana til að mála svona mynd af mér. Hann náði að koma mér rækilega á óvart enda ótrúlega falleg gjöf með einlæga og fallega hugsun á bakvið.
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Fara á jólaball. Mér finnst alltaf jafn gaman að fara og dansa í kringum jólatréð og ekki er verra ef það er pálinuboð eins og var alltaf á jólaböllum í sveitinni í gamla daga. Hef eiginlega verið að leita að svona gamaldags jólaballi eins og ég man eftir úr æsku og úr varð að nú höfum við síðastliðin tvö ár haldið jólaball í samstarfi við Unicef þar sem öllum börnum er boðið. Við dönsum í kringum jólatréð, bjóðum upp á ristaðar möndlur og harmonikkuleik. Svo koma auðvitað jólasveinar í heimsókn með gjafir handa börnunum.
Hvað er í jólamatinn? Þar sem stærstur hluti af fjölskyldunni eru grænmetisætur þá erum við með eggaldin rétt í forrrétt og hnetusteik með öllu tilheyrandi í aðalrétt. Stóru strákarnir fá nautasteik með bernaise og kartöflugratin. Súkkulaði-og möndlukaffi með Nóa konfekti er svo í eftirrétt en við gefum okkur góðan tíma í að borða hann inni í stofu eftir að við erum byrjuð að opna pakkana.
Ef þú ættir eina jólaósk? Það augljósa er að þessi hræðilegu stríð taki enda, og að allir geti átt gleðileg jól. Verð alveg hrikalega varnarlaus og líður eins og ég missi allan mátt þegar ég hugsa um öll þessi átök. Það hljómar kannski barnslega einfalt en ég óska mér að allir séu góðir við hvorn annan og fólk velji kærleikann í öllum aðstæðum.