Jólaglugginn opnaður í bókasafninu

Fyrsti jólaglugginn í Árborg var opnaður á Bókasafninu á Selfossi í morgun. Rakel Sif Ragnarsdóttir sá um að gera hann fínann og fallegann.

Tvær nýjar sýningar eru nú á bókasafninu. Uppi er jólasveinasýning Aðalbjargar Runólfsdóttur. Aðalbjörg er úr Gnúpverjahreppnum en er búsett á Selfossi síðan 1999. Hún hefur alltaf verið mikil handavinnukona og byrjaði að gera jólasveina fyrir nokkrum árum til að gefa og eiga og á nú alla þá sveinka sem hér eru til sýnis. Aðalbjörg hefur leiðbeint fólki í handavinnu um margra ára skeið. Hún átti og rak hannyrðaverslunina Skrínuna.

Í Listagjánni er sýning frá VISS vinnu- og hæfingarstöð. VISS er 50 manna vinnustaður þar sem unnið er að eigin framleiðslu og fyrir önnur fyrirtæki. Á sýningunni eru munir úr tré, leir, basti, pappír, kertavaxi og textil. Fjölbreytt sýning og skemmtileg og svo er alltaf hægt að koma við í verslun VISS í Gagnheiðinni og kaupa framleiðsluna þeirra.

Þann 9. desember kemur svo Upprisukórinn og syngur í safninu ásamt stjórnanda sínum og undirleikara Gylfa Kristinssyni. Þau verða á ferðinni kl. 16:30 miðvikudaginn 9. desember.

Fólk er hvatt til að koma og sjá sýningarnar og koma svo aftur og hlusta á kórinn.

Fyrri greinHálka og skafrenningur á Hellisheiði
Næsta greinListakvöld í Hveragerði