Elínborg Ingimundardóttir á Selfossi svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er meiri jólálfur. Er algjört jólabarn. Þegar jólaandinn kemur yfir fólk er allt bara einhvern veginn skemmtilegra.
Uppáhalds jólasveinn? Giljagaur kom alltaf með afmælisgjöf fyrir mig og síðan Kertasníkir því það þýddi að jólin væru komin og það var líka alltaf eitthvað fínt frá honum í skónum.
Uppáhalds jólalag? Ég er svo mikið jólabarn að mér finnst öll jólalög skemmtileg og það fer mikið eftir stemmingu hvað er í uppáhaldi hjá mér. En Dansaðu vindur með Eivør og Winter Wonderland með t.d. Michael Bublé eru alltaf flott lög að mínu mati.
Uppáhalds jólamynd? Það er hin klassíska Home Alone sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég horfi alltaf á hana í kringum afmælið mitt. Síðan er The Holiday líka alltaf skemmtileg.
Uppáhalds jólaminning? Foreldrar mínir vildu alltaf lesa jólakortin áður en við opnuðum pakkana og sum voru svo ofboðslega löng, sérstaklega þessi þar sem það var farið yfir allt árið. Þannig að bróðir minn tók uppá því eitt árið að hraðlesa öll lengri kortin og þau urðu hratt uppáhalds kortin hjá okkur í fjölskyldunni, þar sem allir voru að springa af hlátri þegar bróðir minn las þau, hann gerði það svo hratt, vel og skemmtilega. Þetta varð síðan að hefð í fjölskyldunni okkar og biðu allir spenntir eftir hraðlestri jólakortanna.
Uppáhalds jólaskraut? Mér finnst mjög gaman að allt skrautið á trénu hjá okkur fjölskyldunni hefur einhverja sögu, flest þeirra eru frá okkur börnunum eða eitthvað sem okkur var gefið. En uppáhalds jólastyttan mín er lítil stelpa í rauðum kjól að leika við hund, sem ég held að amma mín og afi hafi gefið mér.
Minnistæðasta jólagjöfin? Þetta mun hljóma eins og klisja en besta jólagjöfin sem ég get hugsað mér er að fá að eyða jólunum með fjölskyldunni minni og allar góðu minningarnar frá þeim jólum. En ef við tölum um hlut sem ég man vel eftir, þá er það líklega fyrsta Bratz dúkkan sem ég fékk í jólagjöf sem var ekki frá systur minni heldur alveg mín og hún var með nokkuð venjulegan líkama miðað við þessar gömlu sem voru ónáttúrulega grannar, mín var alla vegana með mjaðmir eins og venjuleg kona. Þessi Bratz dúkka var í miklu uppáhaldi hjá mér. Það fyndna er að ég sá þessa dúkku í fríhöfninni þegar við fjölskyldan vorum að koma heim úr fríi fyrr um árið og fannst hún mjög flott en mamma sagði að ég gæti ekki fengið hana núna. Ég var síðan send að hjálpa pabba með töskurnar og steingleymdi dúkkunni. Mamma var þá að kaupa hana fyrir mig og faldi það vel. Síðan var ég mjög hissa og ánægð þegar ég opnaði pakkann og sá dúkkuna og mundi eftir henni.
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Það er sterk hefð í fjölskydunni að við förum á Snæfoksstaði að höggva jólatré, síðan fáum við lummur og kakó eftir hjá yndislegum konum sem bjóða upp á það á staðnum. Það er ómissandi hjá mér.
Hvað er í jólamatinn? Það er alltaf hamborgarhryggur, sykraðar kartöflur og allskonar jólasalöt í boði mömmu og pabba. Einhvern tíman ætlaði mamma að breyta til og hafa kalkún en við systkynin harðneituðum því, við vildum hafa sama góða jólamat eins og alltaf og mamma hefur ekki reynt að breyta því síðan þá. Núna eldar hún bara kalkún líka ef hana langar í hann og fyrir ömmu líka.
Ef þú ættir eina jólaósk? Það er auðvelt, þá myndi ég biðja um endalausan frið á jörðu og jafnréttindi fyrir alla.