Hljómsveitin Elín Helena sendi frá sér nýtt lag í morgun – öllum að óvörum. Lagið heitir Eyjólfur Kristjánsson og má finna það á Spotify, sem og myndband á Youtube.
„Í þjóðfélagsmálum er allt í skít. Baktal og yfirdrull allsráðandi. Pólitísk hrossakaup og almenn óþægindi. Einhver þarf að stinga á þessum kýlum! Í þetta skiptið verður það ekki Elín Helena,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.
„Þess í stað heiðrum við lifandi goðsögn, Eyjólf Kristjánsson, með jólalagi sem enginn hefur verið að bíða eftir og er ekki jólalag,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Höfundareinkenni Elínar Helenu eru skýr í laginu. Þétt pönkrökk með frábærum texta þar sem hljómsveitin veltir fyrir sér mögulegu faðerni Eyjólfs Viðars, annars söngvara hljómsveitarinnar.
Rúsínan í pylsuendanum er síðan gestaleikur Eyjólfs Kristjánssonar sjálfs sem sýnir stórleik í myndbandinu sem fylgir laginu.