Í dag kl. 18 verða ljós tendruð á jólatré við ráðhúsið í Þorlákshöfn. Að venju verður boðið upp á skemmtilega dagskrá þar sem mikið verður um tónlist.
Jólasveinar dansa með íbúum og gestum í kringum jólatréð og boðið verður upp á heitt kakó og piparkökur.
Það er Lúðrasveit Þorlákshafnar sem heldur utanum tónlistarflutninginn og munu kórar Grunnskóla Þorlákshafnar taka undir með söng.
Jólatréð á ráðhústorgi er eitt þeirra jólatrjáa sem Kiwanisklúbburinn Ölver er að selja fyrir jólin og er hefð fyrir því að forseti klúbbsins flytji stutt ávarp og stjórni ljósatendrun. Í ár er það Stefán Jónsson sem annast þennan hluta, þar sem hann er nýorðinn forseti klúbbsins.
Kiwanis ætla þó að gera gott betur líkt og síðasta ár og bjóða upp á heita súkkulaðið. Mikil leynd hvílir yfir uppskriftinni og voru þær reyndar tvær á síðasta ári, báðar gómsætar.
Íbúar eru hvattir til að mæta.