Jólamarkaður VISS opnar í dag

Hinn árvissi jólamarkaður VISS, vinnu- og hæfingarstöðvar, Gagnheiði 39 á Selfossi opnar kl. 11 í dag. Í ár fagnar VISS 30 ára starfsafmæli.

Fyrirtækið hefur verið staðsett á Selfossi frá upphafi og starfsemin verið fjölbreytt. Haustið 2004 var opnuð starfseining frá VISS í Þorlákshöfn og er hún staðsett að Unubakka 4.

Við framleiðslu á VISS er lögð áhersla á endurvinnslu hráefnis og hefur nærsamfélagið verið duglegt að koma með hráefni til endurnýtingar. Á VISS eru framleiddar fjölbreyttar vörur, bæði nytjahlutir og skrautmunir. Vörurnar eru unnar úr til dæmis basti, leir, tré og efni. Einnig eru framleidd kerti, kort og margt fleira.

Jólamarkaðurinn er árviss viðburður þar sem fram fer sala á jólavörum. Undirbúningur fyrir markaðinn hefst í janúar en margar skemmtilegar nýjungar verða þetta árið. Við opnunina verða tendruð ljós á jólatré sem Rotaryklúbbur Selfoss gefur eins og undanfarin ár.

Í tilefni af stórafmælisári verður happadrætti en allir sem versla geta sett nafn sitt í pott og dreginn verður út einn vinningshafi í hverri viku til jóla.

Á staðnum verður kaffihúsastemmning, kertaljós og huggulegheit. Frá 3. desember verður markaðurinn opinn frá 8:30-16:00 alla virka daga.

Fyrri greinÞórsarar hefndu sín á Stólunum
Næsta greinTöfrabragðanámskeið á Selfossi