Miðvikudaginn 18. desember mun Alexander Freyr Olgeirsson, tónlistarmaður og hlaðvarpsstjórnandi, halda góðgerðartónleika í Tryggvaskála á Selfossi.
Tónleikana, sem bera heitið Jólaósk Alexanders, heldur hann til styrktar Barnaspítala Hringsins. Miðarnir á tónleikana ruku út um leið og þeir fóru í sölu og er löngu orðið uppselt á þá en Alexander vonast til að endurtaka leikinn að ári liðnu.
Auk Alexanders munu þau Karitas Harpa, Gunnar Guðni, Fríða Hansen, Elísa Dagmar, Elfa Björk, Anton Guðjóns og Sunnlenskar raddir koma fram á tónleikunum.
Rólegt og kósý en líka smá stuð
„Mig langaði að láta gott af mér leiða. Ég hef mikið verið að spila í desember síðan 2008 í allskonar jólaverkefnum en svo hef ég ekkert bókað mig núna. Mig langaði að gera eitthvað skemmtilegt og ákvað að blása til góðgerðartónleika,“ segir Alexander í samtali við sunnlenska.is.
Alexander segir að undirbúningur fyrir tónleikana hafi gengið vel. „Ég hef verið að jólast með þessu fólki svolítið mikið þannig að við þekkjumst vel. Þessi tónleikar eru svona blanda af mínum uppáhalds jólalögum. Rólegt og kósý en líka smá stuð. Það verða bæði íslensk og erlend lög en ég reyni helst að hafa textann á íslensku ef það er hægt.“
„Ástæðan fyrir því að ég hef þetta þema, Jólaósk Alexanders, er að teiknimyndin Jólaósk Önnu Bellu er í miklu uppáhaldi hjá mér og ólst ég svolítið upp við hana. Einu sinni þegar ég var að horfa á hana þá hugsaði ég hvað það væri gaman að prófa talsetja hana sjálfur. Þannig að ég talsetti alla myndina og á hana til í tölvunni. Ég er nokkurn veginn búinn að þvinga það upp á fjölskyldu og vini að horfa á hana um jólin. Ég ætla að láta tónleikana byrja á smá klippum úr myndinni,“ segir Alexander að lokum.