Laugardaginn 9. desember næstkomandi munu jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli koma til byggða og heilsa upp á bæjarbúa og nærsveitunga á Brúartorgi í miðbæ Selfoss.
Þetta er fertugasta og sjöunda árið í röð sem jólasveinarnir hafa boðað komu sína á Selfoss og verður dagskráin glæsileg að vanda.
Fjörið hefst kl. 14:00 þegar systurnar Aldís Elva og Hugrún Tinna syngja hugljúf jólalög og kl. 15 stíga Tónafljóð á stokk.
Bræðurnir úr Ingólfsfjalli koma svo ríðandi á rútu yfir Ölfusárbrú kl. 16:00. Vonast sveinarnir til að sem flestir komi og taki þátt í gleðinni og setji upp jólasveinahúfurnar í tilefni dagsins.
Ungmennafélag Selfoss mun aðstoða jólasveinana fyrir þessi jól eins og undanfarin ár og verður þeim innan handar með að taka niður pantanir á jólaböll eða vinnustaðaheimsóknir. Nánari upplýsingar og pantanir eru í síma 482-4822 eða á netfangið umfs@umfs.is.