Opið verður upp á gátt í Húsinu á Eyrarbakka í dag. Jólasýning Byggðasafns Árnesinga í borðstofu opnar kl. 13. Lesið verður upp úr nýútkomnum bókum kl. 16.
Jólasýningin hefur verið árviss liður í starfsemi Byggðasafns Árnesinga síðustu áratugi. Gömul jólatré og allskonar jólaskraut setja svip á sýninguna en merkasti gripurinn er spýtujólatré smíðað 1873 og var um langt skeið skreytt lyngi í Hruna í Hreppum og síðar Oddgeirshólum í Flóa.
Bókaupplestur hefst svo kl. 16 í stássstofunni. Fjórir rithöfundar lesa úr verkum sínum. Guðmundur Andri Thorsson les úr verki sínu Valeyrarvalsinn, Vigdís Grímsdóttir les úr nýju bók sinni Trúir þú á töfra? Rithöfundurinn og listakonan Hildur Hákonardóttir les úr bókinni Á rauðum sokkum sem er skrifuð af tólf baráttukonum Rauðsokkahreyfingarinnar og Baggalúturinn Garðar Þorsteinn Guðgeirsson færir hlustendum leyndardóma samhverfa og annarra fyrirbrigða.
Jólakaffi verður á boðstólunum. Ókeypis aðgangur.