Jólin verða kvödd á Selfossi með glæsilegri þrettándagleði mánudaginn 6. janúar. Gleðin verður með hefðbundnu sniði og sér Ungmennafélag Selfoss um framkvæmdina í samvinnu við Sveitarfélagið Árborg.
Að vanda verður farin blysför frá Tryggvaskála kl. 20:00 að brennustæði á tjaldstæði Gesthúsa þar sem kveikt verður í þrettándabálkesti. Jólasveinarnir kveðja og álfar og tröll mæta á svæðið. Þá verður glæsileg flugeldasýning í góðri samvinnu við Björgunarfélag Árborgar.
Í tilkynningu frá Ungmennafélagi Selfoss segir að gaman væri að sjá sem flesta bæjarbúa í trölla-, álfa eða jólasveinabúningum og fólk er hvatt til að fylgjast með fréttum ef veðurspáin lítur illa út.