Á ársþingi SASS sem haldið var á Hótel Stracta á Hellu í lok október var Jóni Bjarnasyni veitt Menningarverðlaun Suðurlands 2021, en verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun á sviði menningar á Suðurlandi.
Jón Bjarnason er starfandi organisti í Skálholti og hefur bæði í starfi sínu og af áhuga og frumkvæði staðið fyrir ýmsum menningartengdum viðburðum í Skálholti og uppsveitum Árnessýslu. Jón spilar allar tegundir tónlistar og nær þannig til breiðs hóps íbúa og gesta. Hann hefur t.a.m. haldið rokktónleika og spilar gjarnan Rolling Stones og Queen lög á orgelið í Skálholtskirkju, þá hefur hann náð til fermingarbarna með því að hafa lagaval í fermingum eftir áhugasviði barnanna.
Jón hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum, t.d. Tómatar og tangó, sem eru tónleikar sem haldnir voru í Friðheimum. Nýjasti viðburðurinn sem Jón stendur fyrir er Óskalögin við orgelið. Þetta er vikulegur viðburður sem stuðlar að virkni í tengslum við menningu á meðal barna og fullorðinna á svæðinu. Ákveðið þema er á viðburðunum og geta gestir fengið óskalag sitt spilað á orgelið og sungið með. Þá vekur hann athygli á menningararfi Sunnlendinga þegar erlendir gestir heimsækja Skálholt og spilar þjóðlög í bland.
Segir í rökstuðningi dómnefndar að Jón Bjarnason hafi með eljusemi, dugnaði og áhuga vakið verðskuldaða athygli á menningarviðburðum og gefið jákvæða mynd af Suðurlandi. Hann hefur stuðlað að þátttöku bæði íbúa og gesta á öllum aldri og vinnur ötullega að því að vekja athygli á menningararfi Sunnlendinga í sínu starfi.
Alls skiluðu sér átta tilnefningar um sex verkefni og var mikil breidd í tilnefningum og gæðum þeirra. Eru tilnefningarnar aðeins toppurinn af ísjakanum í því mikla menningarstarfi sem á sér stað í landshlutanum, segir í tilkynningu frá SASS.