Laugardaginn 24. júní kl. 14:00 verður boðið upp á Jónsmessugöngu upp á Ingólfsfjall. Gengið verður frá Alviðru eftir merktri gönguleið um gönguskarð ofan við bæinn og upp að Inghól, þar sem Ingólfur landsnámsmaður var heygður.
Þaðan er afar víðsýnt á góðum degi. Gangan upp og niður er brött og nokkuð erfið en gönguleiðin á fjallinu er auðveld. Ætla má að gangan taki um þrjár til fjórar klukkustundir. Munið göngustaf, haldgóða skó, hlífðarföt og nestisbita.
Leiðsögumaður er Tryggvi Felixson, fyrrverandi formaður Landverndar. Boðið verður upp á kakó og kleinur í bænum að aflokinni göngu.
Þeim sem ekki treysta sér á fjallið er bent á ákaflega áhugaverða, fallega, vel merkta og auðfarna gönguleið um Öndverðarnes II meðfram Soginu og Hvítá. Leiðbeiningar um þessa gönguleið verða veittar í Alviðru áður en gangan á fjallið hefst.
Allir eru hjartanlega velkomnir, en gott væri að fá vísbendingu um fjölda gesta og göngumanna svo þeir eru beðnir um að senda línu á landvernd@landvernd.is.
Gangan er hluti af sumardagskrá í Alviðru og er hún gjaldfrjáls og öllum opin.