Hin árlega Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka hefst í kvöld með Jónsmessubolta á Garðstúni. Hátíðin heldur svo áfram allan morgundaginn og nær hápunkti með brennu og söng í fjörunni annað kvöld.
Hátíðin verður sett formlega við Sjóminjasafnið kl. 12 á morgun og á eftir fylgja hátíðarhöld á Garðstúni með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Jónsmessukaffihús verður opnað í kjallaranum á Rauða húsinu, boðið verður upp á Bollywood-dans, kjötsúpu og mótorhjólasýningu svo fátt eitt sé nefnt. Þá verða opin hús víða um þorpið og Gamla kartöflugeymslan tekur á móti gestum með heitt á könnunni.
Klukkan 19:30 verður hinn vinsæli samsöngu í Húsinu þar sem sungið verður úr Skólaljóðunum og Heimir Guðmundsson leikur undir á eitt elsta píanó á Suðurlandi.
Síðan tekur við Jónsmessubrennan í fjörunni þar sem trúbadorinn Ingvar Valgeirsson heldur uppi fjörinu og Kristín Eiríksdóttir flytur hátíðarræðu. Botninn er síðan sleginn í dagskrána með Jónsmessuballi á Rauða húsinu þar sem Andri Pétursson heldur uppi stuðinu.