Karlakór Rangæinga hefur gert víðreist á líðandi 25 ára afmælisári kórsins. Tónleikaröðinni lýkur með tónleikum á Selfossi og Hvolsvelli á fimmtudag og föstudag.
Kórfélagar gerðu góða söngferð á vordögum með tónleikahaldi í Reykjavík, á Akranesi, Þingeyri og Ísafirði, auk tveggja tónleika í heimabyggð.
Nú í haust hefur söngurinn ómað í Vík og Vestmannaeyjum en tónleikaröðinni lýkur með fjölbreyttri söngdagskrá í Selfosskirkju fimmtudagskvöldið 29. október kl. 20:30 og í Hvoli á Hvolsvelli, föstudagskvöldið 30. október kl. 20:30.
Með kórnum leika þau Glódís Margrét Guðmundsdóttir á píanó, og Grétar Geirsson á harmoníku. Stjórnandi kórsins er Guðjón Halldór Óskarsson.
Karlakórinn nýtur öflugs stuðnings fólks, fyrirtækja og stofnana í Rangárþingi og fyrir það er þakkað af heilum hug. Fyrir áhugasama nýja söngmenn sem vilja koma úr sturtunni og í kórinn er bent á heimasíðuna.