Það er vel hálfrar aldar gömul hefð fyrir vortónleikum Karlakórs Selfoss á sumardaginn fyrsta. Og nú, þegar vindasömum veiruvetri er að ljúka, hefur kórinn upp raust sína á nýjan leik eftir nánast tveggja ára hlé frá tónleikahaldi.
Aflýsa þurfti vortónleikunum 2020 og 2021 og ekki horfði vel til æfinga í byrjun þessa starfsárs, því þótt veiran væri á undanhaldi, þá hamlaði veður æfingum viku eftir viku. En með þrautsegju og útsjónasemi stjórnanda og píanóleikara – og að sjálfsögðu forráðamanna kórsins, tókst að setja saman og æfa áhugaverða söngskrá sem Karlakór Selfoss ætlar að bjóða uppá í vor.
Fyrstu tónleikarnir í vortónleikaröðinni verða í Selfosskirkju í kvöld klukkan 20, þvínæst verða tónleikar í Selfosskirkju þriðjudaginn 26. apríl kl. 20 og lokatónleikarnir verða laugardaginn 30. apríl í Skálholtsdómkirkju kl. 17.
Ef gluggað er í söngskrá tónleikanna er þar að finna bæði gömul og ný lög og kórinn hefur sum þeirra flutt áður, en vert er að nefna að á söngskránni er dásamlegt þjóðlag frá Úkraínu við texta Sigríðar Þorgeirsdóttur, sem heitir Hljóðnar nú haustblær.
Eins og undanfarin ár eru þeir Skarphéðinn Þór Hjartarson stjórnandi kósrins og Jón Bjarnason píanóleikari.