Leikfélag Ölfuss hefur hafið æfingar á verkinu „Enginn með Steindóri“ eftir Nínu Björk Jónsdóttur. Leikstjóri er Skeiðamaðurinn F. Elli Hafliðason.
Upphaflega var stefnt á að setja upp nýtt íslenskt leikrit, Einn rjúkandi kaffibolla, eftir heimamanninn Aðalstein Jóhannsson en því miður tókst ekki að fá nógu marga karlmenn til að leika í þetta sinn en karlmannsleysi hefur hrjáð Ölfusinga um nokkurt skeið, að því er segir í fréttatilkynningu frá leikfélaginu.
Því var brugðið á það ráð að velja annað verk. Enginn með Steindóri er drepfyndið gamanleikrit sem kemur sífellt á óvart. Sagan gerist á heimili bankastjóra nokkurs og hans listelskandi ektakvinnu en þau hafa boðið foreldrum verðandi tengdasonar síns í mat. Þegar fólkið fer að kynnast tekur leikurinn að æsast og ekki lagast það þegar bróðir verðandi tengdasonarins mætir óboðinn í partíið. Sprenghlægilegar persónur og óútreiknanlegur söguþráður. Frumsýnt verður í lok október.
Leikfélag Ölfuss er á Facebook og ef þú hefur ekki gerst vinur þess nú þegar er ekkert sem ætti að stoppa þig í því. Félagið hefur einnig nýlega stofnað bloggsíðu.