Keli sýnir í Hveragerði

Þorkell Þórisson, Keli, hefur opnað myndlistarsýningu í Bókasafninu í Hveragerði.

Á sýningunni eru olíu- og akrýlmálverk af ýmsum toga og frá ýmsum tímum.

Keli býr í Hveragerði en er fæddur í Kólumbíu og var til skiptis þar og á Íslandi þangað til hann flutti til Íslands með fjölskyldunni 10 ára gamall.

Hann fór ekki að mála fyrr en undir þrítugt. Hann stundaði myndlistarnám við Myndlistarskóla Reykjavíkur 1989-91 og árin 1996-99 í Malaga á Spáni við The Art Center of Mijas og Academia Eugenio de la Cruz, en hann bjó á Spáni í fjögur ár.

Keli hefur haldið sýningar m.a. í Reykjavík, London, Fuengirola og Malaga á Spáni og í Skelleftå og Jörn í Svíþjóð. Hann sýndi einnig í Eden fyrir 10 árum síðan. Þá ákvað hann að flytja til Hveragerðis. Örlögin höguðu því þó þannig að hann fór fyrst til Svíþjóðar og það var fyrst fyrir þremur árum sem hann flutti í blómabæinn.

Sýningin er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19, þriðjudaga til kl. 21 og laugardaga kl. 11-14 og stendur til 12. júlí.

Fyrri greinRúmlega þrjátíu sækja um í Skaftárhreppi
Næsta greinLýst eftir vitnum að málningarslysi