Miðvikudaginn 7. júlí klukkan 15 til 17 verður fræðsluganga um Skálholt með Bjarna Harðarsyni rithöfundi.
Skimað verður eftir hinum forna gangvegi Kölska neðan úr Laugarási, litið við hjá Helgum systrum og rifjaðar upp bardagasögur staðarins. Í göngulok verður litið við þar sem menn börðu rauðann úr mýrinni á síðustu dögum Skálholtsstóls.
Bjarni Harðarsson er fyrir löngu orðinn kunnur fyrir kyngimagnaðar frásagnir og skemmtilegar sögur, sannar eða ekki.
Gera má ráð fyrir að gangan taki um tvær klukkustundir. Þátttakendur eru hvattir til að fá sér kaffi og vöfflu á Veitingahúsinu Skálholti til að ná upp orku fyrir gönguna.
Gangan er ókeypis og allir velkomnir en gangan er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.