Kjötsúpan flæðir um Hvolsvöll

Það er alltaf líf og fjör á Kjötsúpuhátíðinni. Ljósmynd/Aðsend

Hin árlega Kjötsúpuhátíð í Rangárþingi eystra verður haldin um næstu helgi og hófst reyndar í gær þar sem bændur í Stóru-Mörk 1 hituðu upp með kjötsúpuboði.

Dagskráin hefst svo af fullum krafti á fimmtudag þar sem meðal annars verður boðið upp á þögult diskótek fyrir yngri kynslóðina og gítarleikarinn og gleðigjafinn Andri Ívars verður með Stefaníu Svavars á uppistandstónleikum í stóra tjaldinu um kvöldið.

Á föstudeginum er fjölbreytt dagskrá; uppskeruhátíð sumarlesturs, grillkynning, BMX námskeið og sýning, sumarkjóla- og búbbluhlaup áður en súpuröltið góða hefst klukkan 19:00 en þar bjóða bæjarbúar upp á súpur í heimahúsum.

Laugardagurinn verður svo pakkaður af viðburðum frá morgni til kvölds. Dagskráin hefst á Naflahlaupinu og eftir hádegi verður tívolí, flóamarkaður, markaðstjald og fjölbreytt fjölskylduskemmtin þar sem meðal annars koma fram Anna Fanney, Patr!k, Sirkus Íslands, Íþróttaálfurinn og Solla stirða. Að sjálfsögðu mun svo Sláturfélag Suðurlands bjóða upp á kjötsúpusmakk á miðbæjartúninu á meðan birgðir endast.

Klukkan 21 verður talið í brekkusöng með Guðrúnu Árný í stóra tjaldinu þar sem Helgi Hermannsson úr Logum verður sérstakur gestur. Eftir flugeldasýningu verður svo hið ómissandi kjötsúpuball með Stuðlabandinu í stóra tjaldinu. Sunnudagurinn er öllu rólegri en hann hefst á menningargöngu með Ísólfi Gylfa og Lárusi Bragasyni og eftir hádegi verður ljósabolti í íþróttahúsinu, þar sem spilað er í myrkri með sjálflýsandi bolta.

Eins og sjá má mun engum leiðast þessa helgi og allir bæði saddir og sáttir. Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar og má finna allar nánari upplýsingar um dagskrá og viðburði á Facebook síðu hennar.

Fyrri greinStórsigur gegn FH á Ragnarsmótinu
Næsta greinÞrír sektaðir fyrir utanvegaakstur