Kristján Kristjánsson mun heiðra Eyrbekkinga og nærsveitunga með nærveru sinni og tónlist föstudaginn 21. ágúst. Tónleikarnir hefjast kl 20:00.
KK hefur fyrir löngu spilað sig inní íslenska þjóðarsál og því er um einstakt tækifæri að ræða til að fá að upplifa manninn og listina í návígi.
Frítt inn en frjáls framlög eru vel þegin. Haldnir hafa verið nokkrir tónleikar í Óðinshúsi í sumar og hefur stemningin verið dásamleg. Þarna er hægt og koma og njóta tónlistar í sinni tærustu mynd án barglaums og dægurþras.
Í Óðinshúsi er einnig myndlistarsýning helgina 21.-23. ágúst en þar sýna myndlistarkonurnar Charlotta, Helga, Ásdís og Kolbrún. Það má því búast við töfrandi stemningu við hafið á Eyrarbakka.
KK mun leika af fingrum fram umvafinn list og fegurðarinnar sem Eyrarbakki hefur ávallt verið rómaður fyrir.