Söngkonan Klara Einars verður meðal þeirra sem koma fram á tónlistarhátíðinni Kótelettunni 11. til 13. júlí á Selfossi.
Klara var að gefa út nýtt lag sem heitir Þú ert svo, sem hún samdi með upptökustjóranum Ingimari Tryggva. Klara kemur fram með fríðu föruneyti á Kótelettunni en með henni verður Dj Rakel Gísla, trommarinn Bjarki „Bómars“ Ómarsson og hópur dansara.
Hér er hægt að hlusta á lagið á Spotify
Byrjaði að syngja áður en hún byrjaði að tala
Hin 18 ára Klara gaf út sitt fyrsta lag aðeins 12 ára gömul og snerti hjörtu fólks með einlægum flutningi sínum á „Síðasta sumar.“ Lagið er endurgerð af gömlu Nylon lagi sem kom fyrst út árið 2004. Klara hefur verið í kór frá því að hún var tíu ára og er ein af þeim sem er stöðugt að syngja eða humma laglínur og það mætti segja að hún hafi byrjað að syngja áður en hún byrjaði að tala.
Síðustu fjögur ár hefur hún verið hluti af sýningu 9 líf í Boargarleikhúsinu og í nóvember á síðasta ári vann Klara Vælið, söngkeppni Verslunarskóla Íslands. Í framhaldi af því kom svo út jólalagið Handa þér og núna í júní kom svo lagið Þú er svo sem er fyrsta lagið sem hún semur sérstaklega fyrir sinn feril.
Spaðalæti verða beinlínis pirrandi
Ferðalag Klöru er til marks um óbilandi ástríðu hennar og alúð við iðn sína. Með hverri nótu sem hún syngur og hverju lagi sem hún semur heldur hún áfram að hrífa og hvetja, og lofar framtíð fulla af fallegum laglínum og innilegum textum.
„Lagið er samið af mér og Ingimar Trygga og Ingimar stjórnaði upptökunum. Það var rosalega gaman að vinna með honum og þetta gekk rosalega hratt. Ég hlakka mikið til að sjá viðbrögð hlustenda við þessu. Svo erum við með tvö önnur lög tilbúin en það er ekkert búið að ákveða neitt með framhaldið,“ segir Klara.
„Jólalaginu mínu var mjög vel tekið og það var alveg geggjað að heyra það spilað í útvarpinu. Reyndar alveg magnað en auðvitað er ennþá meira spennandi fyrir mig að koma núna með mitt eigið lag og ekki bara í mínu nafni heldur lag sem ég er sjálf að taka þátt í að semja,“ bætir hún við. „Textinn er bara svona augnablik af upplifun þegar spaðalæti í einhverjum gaur sem gæti alveg verið spennandi verður beinlínis bara pirrandi.“