Hvað er svona merkilegt?, er yfirskrift kvöldstundar sem Bókabæirnir austan fjalls standa fyrir í Tryggvaskála á fimmtudagskvöldið 7. mars. Kvöldið er tileinkað karlabókmenntum og hefst kl. 19:00.
„Hugmyndin spratt upp frá kvennabókakvöldinu sem við héldum í fyrra og vakti glimrandi lukku. Í Bókabæjunum eru miklir femínistar og við vildum gæta jafnréttis – svo nú var komið að körlunum,“ segir Harpa Rún Kristjánsdóttir, annar kynna kvöldsins, í samtali við sunnlenska.is.
„Það er áhugavert að sjá að þrátt fyrir að karlar hafi lengi verið ráðandi raddir bókmenntaheimsins þá var mun flóknara að setja saman dagskrá um karlabókmenntir en kvenna. Þetta er einhvernvegin viðkvæmara efni og erfiðara að nálgast það. Vegna þess hvað þetta er loðið hugtak ákváðum við að hafa pallborðsumræður – með þessu nú líka fagfólkinu – og verðum vonandi töluvert nær um hvað karlabókmenntir eru að kvöldinu loknu. Eða kannski ekki, en það ætti allavega að verða gaman, og það er aðalmálið,“ bætir Harpa Rún við.
Auður Ava, Bjarni, Hallgrímur og Ragnar í pallborði
Ásta Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum, mun flytja erindið „Ofdýrkun karlmennskunnar“. Elías Mar og karlmennskukomplexar eftirstríðsáranna og Einar Kári Jóhannsson, M.A. í almennri bókmenntafræði, flytur erindið Áhrif Undir fána lýðveldisins á karlmennsku í íslenskum stríðssögum.
Það verður líka boðið upp á lífleg skemmtiatriði. Hljómsveitin Köttur í vanskilum mun flytja kontrakvæði og leikarar úr Leikfélagi Ölfuss munu flytja brot úr uppfærslu félagsins á Saumastofunni eftir Kjartan Ragnarsson.
Í lokin verða pallborðsumræður þar sem rithöfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir, Bjarni Harðarson, Hallgrímur Helgason og Ragnar Jónasson sitja í pallborði og ræða hugtakið „karlabókmenntir“ við spyrla og gesti.
Ekkert pláss fyrir sópran
Jón Özur Snorrason og fyrrnefnd Harpa Rún sjá um að stýra kvöldinu og Harpa bætir við að lokum að konur séu velkomnar á þessa kvöldstund.
„Auðvitað eru konur velkomnar, enda eru þær í sífellu að troða sér inn á fleiri svið samfélagsins. Mig hefur lengi dreymt um að fá að vera með í svona karlahlutum – reyndi að komast í karlakór til dæmis, en þar var ekkert pláss fyrir sópran. Nú hinsvegar held ég karlakvöld, þar sem ég ræð, og býð því konur velkomnar,“ segir Harpa Rún hlæjandi að lokum.
Kaffi og konfekt verður í boði Bókabæjanna og barinn opinn.