„Við erum mjög spenntir fyrir Unglingalandsmótinu á Selfossi. Þetta er ótrúlegt tækifæri sem við fáum að spila fyrir framan alla og hita upp fyrir stóru nöfnin sem koma fram. Við stefnum á hörkuæfingar fram að mótinu,“ segir Arilíus Smári Orrason, bassaleikari og einn söngvara í hljómsveitinni Koppafeiti.
Koppafeiti er ein þeirra hljómsveita sem munu koma fram á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina og hita upp fyrir vinsælasta tónlistarfólk landsins sem þar kemur fram.
Fjöldi tónlistarfólks kemur fram á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina. Þar á meðal eru stærstu stjörnur dagsins, Bríet, GDRN, Frikki Dór og Stuðlabandið auk Sprite Zero Klan og Moskvít. Auk þess sjá plötusnúðar um að halda stuðinu uppi.
Hljómsveitin Koppafeiti samanstendur af þremur 16 ára tónelskandi Selfyssingum og var stofnuð til að taka þátt í tónlistarkeppni félagsmiðstöðvarinnar Zelsíus. Þótt bandið hafi ekki komist á Samfés þá var Koppafeiti valin skemmtilegasta hljómsveitin. Strákarnir eru allir nýútskrifaðir úr Sunnulækjarskóla á Selfossi en þar voru þeir í nemendaráði og sömdu meðal annars árshátíðarlag skólans og er það komið með 1.200 spilanir á Spotify. Þeir ætla allir í haust að feta áfram menntaveginn í Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) á Selfossi.
„Okkur hlakkar mikið til að koma fram á mótinu og hitta aðrar hljómsveitir. Við vitum að mikið af hæfileikaríku fólki er í hljómsveitum hér og þar en færri á okkar aldri. Við stefnum á að kynnast þeim og hita upp fyrir hitt tónlistarfólkið,“ segir Arilíus Smári að lokum.