Koppafeiti segir kvöldfréttir

Hljómsveitin Koppafeiti. Ljósmynd/Aðsend

Hljómsveitin Koppafeiti sendir frá sér sína fyrstu plötu næstkomandi föstudag. Platan ber heitið Nú verða sagðar kvöldfréttir og á henni eru sex lög.

Lögin eru að mestu leiti tekin upp undir Eyjafjöllunum og bera þau mikinn keim af íslensku sveitaballasumri. Lögin semja Hvergerðingurinn Ívar Dagur Sævarsson gítarleikari og Rangæingurinn Hákon Kári Einarsson hljómborðsleikari. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru Selfyssingarnir Smári Orrason trommuleikari, Sólmundur Ingi Símonarson bassaleikari og Rúnar Freyr Gunnarsson slagverksleikari.

Koppafeiti sendi frá sér smáskífu fyrir tveimur vikum sem innihélt lögin Með báðum höndum og Gluggamóða, en lögin eru tekin af væntanlegri plötu.

Í örstuttu viðtali við sunnlenska.is sagði Ívar dagur að Nú verða sagðar kvöldfréttir sé boðberi nýrra tíma og lagasmíða hjá hljómsveitinni. Á plötunni verði hægt að finna forsmekkinn af því sem koma skal hjá Koppafeiti og að hljómsveitin setji markið hátt, jafnvel hærra.

Fyrri greinHólmfríður leiðir lista Vg í Suðurkjördæmi
Næsta greinElvar leiðir Lýðræðisflokkinn í Suðurkjördæmi