Hinir árlegu jólatónleikar Kórs Menntaskólans að Laugarvatni verða haldnir með breyttu sniði í ár. Vegna aðstæðna í samfélaginu verður ekki boðið upp á að kaupa miða í sal en í staðinn verður beint streymi af tónleikunum.
Tónleikarnir verða í kvöld, fimmtudaginn 25. nóvember kl. 20:00, og efnisskráin er fjölbreytt að venju. Undirleikur er í höndum Eyrúnar Jónasdóttur kórstjóra auk kórfélagra sjálfra.
„Við vonumst til að geta komið öllum í jólaskap og mælum með því að áheyrendur hafi það notalegt heima hjá sér, kveiki á kerti og borði mandarínur og piparkökur,“ segir í tilkynningu frá kórnum.
Aðgangur að streyminu kostar 3.000 kr. Þeir sem kaupa miða geta horft á upptöku af streyminu til kl. 22:00 sunnudaginn 28. nóvember, eins oft og þeir vilja.