Regnboginn, hin árlega samfélagshátíð Mýrdælinga, hófst í gær en þetta er í sautjánda skiptið sem hún er haldin. Alla helgina verða fjölbreyttir viðburðir auk þess sem fyrirtæki og íbúar eru með litrlík tilboð, opin hús og taka vel á móti gestum og gangandi.
Í ár er þemað “krafturinn” sem vísar jafnt í kraftinn sem býr í samfélaginu og til kraftsins í nærumhverfinu, en í ár eru 105 ár frá síðasta Kötlugosi. Íbúar skreyta götur, hús og póstkassa regnbogalitum auk þess sem myndlista- og ljósmyndasýningar eru opnar alla helgina.
Meðal dagskrárliða á föstudag má nefna útgáfuhóp Svavars Guðmundssonar, hljóðlaust diskó og alþjóðlegt matarsmakk, sem hefur aldeilis slegið í gegn á síðustu árum og sannar hið fornkveðna, að leiðin að samfélagshjartanu er í gegnum magann.
Uppistand og októberfest
Laugardagurinn hefst með menningargöngu Ferðafélags Mýrdælinga undir styrkri stjórn Möggu Steinu og eftir hana er hægt að kíkja við hjá starfsfólki Mýrdalshrepps í vöfflukaffi og á Regnbogamarkaðinn, sem er litríkur, fjölbreyttur og skemmtilegur. Jói Fel breytir bílskúr tengdaforeldranna í listasmiðju og sýnir ný verk. Skemmtileg barnadagskrá verður í íþróttamiðstöðinni með Leikhópnum Lottu, loftboltum, hoppukastölum og veltibíllinn frá Sjóvá verður á svæðinu.
Í Skaftfellingsskemmu munu krakkarnir á leikskólanum Mánalandi vígja nýtt glæsilegt vegglistaverk Kötluseturs eftir listamanninn Maciej Lenda ásamt því að opna sína eigin sýningu Sjáðu hvað ég get og mýrdælska söngkonan Ragna Björg mun taka nokkur lög. Þýskur andi liggur svo yfir Smiðjunni – brugghúsi sem býður í Októberfest með öllu tilheyrandi. Það er enginn annar en Pétur Jóhann sem kitlar hláturtaugarnar á laugardagskvöldinu með glænýtt efni og Atli skemmtanalögga lýkur svo fjölbreyttum degi með ekta sveitaballi.
Málþing tileinkað viðbragðsaðilum
Á sunnudeginum býður Tónskóli Mýrdalshrepps til glæsilegra tónleika með Dr. Nínu Margréti Grímsdóttur. Tónleikarnir eru tileinkaðir Dr. Páli Ísólfssyni en hann hefði orðið 130 ára í dag, 12. október. Málþingið Katla 105 er tileinkað viðbragðsaðilum almannavarna í Mýrdalshreppi og mun Slökkvilið Mýrdalshrepps, Björgunarsveitin Víkverji og Víkurdeild Rauða kross Íslands vera með fræðslu og mæta með bíla, tól og tæki. Evrópuverkefnið #FirstAid+ mun einnig kynna sig og bjóða gestum að prófa VR skyndihjálpargleraugu.
Á sunnudag verður einnig hátíðarkaffi á Hótel Kötlu sem verður tileinkað fjáröflun fyrir nýjum bíl Víkverja með happdrætti og munu Alexandra Chernyshova, sópransöngkona og Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari flytja klassískar söngperlur. GDRN og Magnús Jóhann ljúka Regnboganum með töfrandi tónum í Víkurkirkju.
Hægt er að sjá alla dagskrána á Facebook síðu Regnbogans.