Eiður Birgisson, framleiðandi og Elvis-aðdáandi, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2024 hjá þér? 24 var nokkuð gott ár, það var mikið að gera í innlendri kvikmyndagerð. Ég framleiddi þónokkrar sjónvarpsauglýsingar og sjónvarpsþáttaseríu sem heitir Reykjavík Fusion og sjónvarpsþætti úr bókunum Útkall. Þessir þættir koma út á næsta ári.
Hvað stóð upp úr á árinu? Ferðin með frúnni til USA stóð upp úr. Við ferðuðumst aðeins um USA, fyrst til New York og þaðan til Nashville Tennessee þar sem við keyrðum töluvert um, yfir til Alabama, Memphis. Toppurinn var að skoða Graceland þar sem ég hef verið Elvis aðdáandi frá því að ég var krakki. Talandi um USA þá keypti ég mér kúrekahatt í Nashville sem ég notaði alla ferðina og ég sá fyrir mér að ég myndi nota alla daga þegar ég kæmi til baka úr ferðinni, því ég kunni svo vel við hattinn en á því augnabliki sem mér var boðið „góðan daginn“ á íslensku þegar ég steig upp í Icelandair flugvél þá tók ég hattinn niður og hef ekki notað hann síðan. Ég er á þeirri skoðun að nokkrir umdeildir menn hafi eyðilagt fyrir okkur hinum að vera með kúrekahatt. Ég fer ekki nánar út í það hér. Svo fór ég til London með krakkana mína. Það er ótrúlega gaman að ferðast og upplifa hluti með þeim. Það sem stendur upp úr á árinu er utanlandsferðir, verkefni í vinnunni með skemmtilegu samstarfsfólki og eyða tíma með fjölskyldunni.
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Mig langar að segja eitthvað svakalega nett um lag ársins hjá mér en Spotify listinn minn þetta árið er frekar mjúkur og lag númer eitt á listanum er með Frikka Dór og heitir Aftur Ung ekki mikið nett við það svar nema hvað það er heiðarlegt svar.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Mér hefur fundist ómissandi að fíra upp í Cohiba vindli á gamlárskvöld, annars finnst mér áramótin vera ofmetin. Það er best að vera með sem minnstar væntingar til þeirra svo að vonbrigðin verði sem minnst.
Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Ég verð í mat hjá foreldrum mínum á gamlársdagskvöld og þaðan fer ég í partý til Siggu frænku. Allir þeir sem lesa í þetta í tæka tíð er boðið í partý til Siggu.
Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Kalkúnninn hjá mömmu slær ekki feilpúst!
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Ég hef stundum strengt áramótaheit en líklegast verður ekkert strengt þetta árið, það er þá engin pressa á að þurfa að standa við neitt. En ef ég þyrfti að strengja áramótaheit þá væri það bara eitthvað einfalt eins og að fara oftar í bíó.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Nýja árið leggst vel í mig, ég held að þetta verði bara betra og betra með hverju árinu sem líður. Árin líða reyndar orðið mjög hratt, það er stutt í næstu jól.