Heimildarmyndin Kúreki norðursins verður frumsýnd sunnudaginn 15. september kl. 19:30 í Bíóhúsinu Selfossi. Myndin fjallar um Johnny King, eða Jón Víkingsson, sem hefur verið búsettur á Selfossi síðustu árin.
Andri Freyr Viðarsson framleiðandi, Árni Sveinsson leikstjóri og Johnny King sjálfur mæta og kynna ferlið og sitja fyrir svörum. Myndin er svo sýnd strax í kjölfarið. Myndin vann Ljóskastarann, dómnefndarverðlaun kvikmyndahátíðarinnar Skjaldborgar í maí síðastliðnum og hlaut gríðar góðar undirtektir meðal áhorfanda þegar hún var sýnd í fyrsta sinn á þeirri hátíð.
Fyrir rúmum níu árum fékk Andri Freyr símtal frá Magga í Texasborgurum, sem sagðist vera með endurkomutónleika gamallar kántrý hetju sem heitir Johnny King. Andri hafði eytt mörgum stundum í að skoða umslag plötu Johnny, Country Rock í æsku og skiljanlega tók forvitnin öll völd. Andri hóaði í Árna Sveins og kom að máli við framleiðslufyrirtækið Republik og umsvifalaust var ráðist í að heimsækja og kynna sér Johnny King með myndavél og hljóðnema í farteskinu.
Fljótlega kynntust þeir Johnny King vel og komust að ýmsu um hans fortíð og framtíðardrauma. Úr verður gríðarlega einlæg og persónuleg mynd, þar sem ást, tónlist og vinskapur kemur mikið til sögunnar. Á átta árum var fylgst með Johnny, ferðast með honum og mörgum dögum eytt saman.
Í myndinni opnar Johnny King sig á einlægan átt og segir m.a. frá sambandi sínu við Hallbjörn í Kántríbæ og lætur í ljós sínar skoðanir á kúrekaæðinu í kjölfar myndar Friðriks Þórs Friðrikssonar (Kúrekar norðursins). Hann rifjar upp erfiða æsku sem og gullaldarár sín, auk þess að skyggnst verður inn í hvernig hann upplifir samtímann. Hvar er Johnny King staddur í dag?
Framleiðendur eru Árni Þór Jónsson, Halldór Hilmisson, Ada Benjamínsdóttir og Lárus Jónsson. Myndin var framleitt með styrk frá Kvikmyndamiðstöðinni og RÚV. Klipping var í höndum Stefaníu Thors og Úlfhildur Eysteinsdóttir hljóðvann myndina. Auk tónlistar Johnny King í myndinni þá var það enginn annar en KK sem bjó til stef og tónlist.
Myndin verður sýnd í Bíóhúsinu eftir 15. september.
Umsögn dómnefndar Skjaldborgar:
„Myndin nálgast sársaukafulla reynslu af hugrekki og virðingu. Hún vinnur á aðdáunarverðan hátt með væntingar áhorfenda og sagan öðlast dýpri merkingu þegar viðfangsefnið nær óvænt valdi á eigin sögu. Áhorfandinn er skilinn eftir með stórar spurningar um áhrif áfalla, velgeng, karlmennsku og ekki síst leitina að hamingjunni.“