Það verður nóg um að vera á Sólheimum í Grímsnesi í dag. Kvennahlaupið verður hlaupið og klassískir tónar munu hljóma í kirkjunni.
Opnunin á menningarveislu Sólheima um síðustu helgi tókst vel og var fjölmenni við opnunina, sýningar voru opnaðar, höggmyndin Fjörfiskur eftir Jón B. Jónasson var afhjúpuð, Sólheimakórinn var með frábæra tónleika og endaði dagurinn með því að Ágúst Backman kynnti ormaræktunina á Sólheimum.
Dagurinn í dag hefst á Kvennahlaupinu og er allar konur hvattar til að taka þátt með íbúum Sólheima en hlaupið verður ræst kl. 11.
Kl. 14 verða tónleikar í kirkjunni en að þessu sinni hljóma fallegir klassískir tónar frá Hrafnkeli Orra Egilssyni sellóleikara og Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttir píanóleikara.
Ekki má heldur gleyma hinni árlegu heimsókn mótorhjólaklúbbsins Postulanna sem ætla að þeysast um svæðið kl. 15 á 15 kílómetra hámarkshraða.