Kvennakór Hornafjarðar syngur sína seinni vortónleika í Guðríðarkirkju í Grafarvogi í kvöld, þriðjudagskvöld klukkan 20:00, en fyrri tónleikar kórsins voru haldnir á Höfn í síðustu viku.
Að tónleikum loknum fer kórinn í söngferðalag til Bretlands og syngur í borgunum Bournemouth og Pool 19. júní. Kórinn fer í söngferðalög erlendis á þriggja ára fresti og grerir það sannarlega mikið fyrir kórinn að syngja á erlendri grund, að því er fram kemur í tilkynningu frá kórnum.
Þess má geta að kvennakór Hornafjarðar er þekktur sem baráttukór, eftir að hafa sungið á og vakið athygli á einbreiðum brúm í Sveitarfélaginu Hornafirði. Þær sungu við formlega athöfn Vegagerðarinnar þegar tvíbreið brú við Steinavötn í Suðursveit var tekin í notkun.
Stjórnandi kvennakórs Hornafjarðar er Heiðar Sigurðsson sem hefur útsett og samið mörg þeirra laga sem kórinn er með á söngskrá sinni. Formaður kórsins er Erna Gísladóttir.
Meðal laga á söngskránni í kvöld eru Bohemian Rhapsody, Draumalandið, Einskonar ást, Esjan, Holding Out for a Hero og Hvert örstutt spor.