Lúðrasveit Þorlákshafnar heldur fjölskylduskemmtun af bestu sort föstudaginn 3. nóvember næstkomandi í Hlíðardalsskóla í Ölfusi. Þar mun sveitin leika þekkta kvikmyndatónlist úr ólíkum áttum og frá mismunandi tímabilum.
Undir spilamennskunni munu rúlla myndskeið úr viðkomandi kvikmyndum á stórum skjá. Á efnisskránni má meðal annars finna tónlist úr kvikmyndum eins og Harry Potter, Mission Impossible, Shrek og Hringjaranum úr Notre Dame. Eitthvað fyrir alla. Stjórnandi Lúðrasveitar Þorlákshafnar er Daði Þór Einarsson.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og eru sem fyrr segir í Hlíðardalsskóla í Ölfusi. Til gamans má geta að Hlíðardalsskóli er aðeins 8 km frá Þorlákshöfn, 26 km frá Selfossi og 40 km frá Norðlingaholti svo dæmi séu tekin. Skottúr!
Sem fyrr segir er um viðburð að ræða sem hentar öllum aldri og ungir sem aldnir geta komið og notið saman. Almennt miðaverð er 3.500 kr en 2.500 kr. fyrir 12 ára og yngri. Hægt er að nálgast miða á tix.is.