„Kvöldstund full af dulúð og harmi“ er yfirskrift tónleika Kanadamannsins Stephen Jenkinsons, sem heldur tónleika ásamt hljómsveit í Aratungu mánudaginn 22. júlí klukkan 20.
Jenkinson, sem er 65 ára, er allt í senn rithöfundur, bóndi, kennari, sagnamaður og tónlistarmaður. Hann hefur að undanförnu ferðast um veröld víða ásamt hljómsveit sinni, m.a. um Norður-Ameríku, Ástralíu, Tasmaníu og Evrópu.
Jenkinson var í tvo áratugi líknarráðgjafi deyjandi fólks, og er höfundur bókarinnar Die Wise: A Manifesto for Sanity and Soul en alls hefur hann gefið út fjórar bækur með hugleiðingum sínum, sem vakið hafa mikla athygli. Þá var gerð um hann heimildarmyndin Griefwalker þar sem boðskapurinn er sá að við eigum að umfaðma dauðann í stað þess að óttast hann.
Á tónleikunum fléttar Stephen Jenkinson saman tónum og sagnalist, segir kynngimagnaðar sögur, og vísar jafnt til sögu Íslendinga sem ósamþykktrar sögu Norður-Ameríku og spyr spurninga á borð við: Hvað hefur komið fyrir okkur? Hvernig kom það til að við gleymdum, hver nærir okkur og hver er ábyrgð okkar í heiminum? En hann minnir okkur að það hægt að hlæja líka, þrátt fyrir allt.
Þetta eru þriðju og síðustu tónleikar Jenkinson á Íslandi nú í júlímánuði en Elín Agla Briem, þjóðmenningarbóndi í Árneshreppi, skipuleggur tónleikaröð Jenkinsons og félaga á Íslandi. Þetta er í þriðja skipti sem hann kemur til Íslands. Hann hefur í tvígang haldið námskeið í Árneshreppi sem hafa laðað að fólk víðsvegar úr heiminum.