Kýrnar handmjólkaðar við kertaljós í rafmagnsleysi á jólunum

Lýður Pálsson sendir jólakveðju frá Tene. Ljósmynd/Aðsend

Lýður Pálsson frá Litlu-Sandvík svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Að sögn Sibbu kærustu minnar er ég víst meiri jólaálfur.

Uppáhalds jólasveinn? Það er jólasveinn Sandvíkurhrepps. Hann spyr mig alltaf um hjúskaparmál mín hverju sinni. Mjög forvitinn jólasveinn, stríðinn en skemmtilegur. En ég hef ekki séð hann í nokkuð langan tíma enda jólatrésskemmtanir sveitarinnar hættar. Skyrgámur heitir jólasveinninn og er með bumbu sem er eins og var á Magnúsi Hlyni Hreiðarssyni áður en hann grennti sig.

Uppáhalds jólalag? Í dag er glatt í döprum hjörtum fær mig alltaf til að klökkna. Sr. Valdemar Briem og Mozart voru snillingar.

Uppáhalds jólamynd? Jah það er nú það. Þær eru margar Hollywood-jólamyndirnar sem ég hef haft ánægju af eins og Home Alone myndirnar. En best er þó sennilega Love Actually – einstök jólamynd.

Jól í Litlu-Sandvík árið 1981.

Uppáhalds jólaminning? Það eru jól æsku minnar í Litlu-Sandvík. Jólaskrautið sótt upp á háaloft um hádegið á aðfangadag, húsið skreytt, jólatréð líka, svo skúrað, farið snemma í fjósið, sturta og spariföt, borðhald með uxahalasúpu í forrétt, hátíðarmatur, gosdrykkir en pabbi drakk Thule-pilsner og í eftirrétt var ísterta. Og svo voru allir pakkarnir opnaðir niðri í borðstofu hjá afa og ömmu. Þetta rennur nú allt saman í minningunni og eru dásamlegar jólaminningar. En einu sinni fór rafmagnið sem var eftirminnilegt. Kýrnar handmjólkaðar og allt dróst á langinn, kerti út um allt og mamma dró fram hangikjötið sem vera átti á jóladag. Svo var það líka mjög eftirminnilegt þegar ég flutti á jólanótt frá Litlu-Sandvík til stúlkunnar sem ég elskaði svo mikið, stofnaði með henni fjölskyldu og við eignuðumst tvö dásamleg börn. Börnin eru nú orðin fullorðin en hjónabandið er jú reyndar löngu fyrir bí.

Uppáhalds jólaskraut? Það er jólatréð hennar Aldísar ömmu. Gervijólatré með bjöllujólaseríu frá Reykjalundi. Á jólatrénu var allskonar jólaskraut og litlir íslenskir fánar í bandkippu. Það þarf varla að segja frá því að í dag er jólatréð hennar ömmu safngripur í Byggðasafni Árnesinga og til sýnis hver jól á jólasýningu safnsins.

Jólatréð hennar Aldísar ömmu.

Minnistæðasta jólagjöfin? Æ, nú á ég erfitt með að svara. Alltaf fæ ég hver jól gjöf sem gleður mig meira en aðrar gjafir. Börnin mín voru og eru reyndar enn lunkin við að gleðja mig. En jú: Loðhúfan sem amma í Reykjavík gaf mér í jólagjöf þegar ég var unglingur. Hún var þá aðeins of stór á mig en passar ágætlega núna og ég á hana enn.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Það tekur sinn tíma að komast í jólagírinn, en það gerist sjálfkrafa þegar líður að aðventu með jólalögum, allskonar jólaviðburðum og björtum jólaljósum á byggingum. Eitt er ómissandi sem er laufabrauðsgerð á æskuheimilinu. Mamma kom með þennan sið að norðan þegar hún flutti með pabba að Litlu-Sandvík en systur mínar lærðu af henni að búa til deigið og við öll systkinin og afkomendur komum saman á aðventunni og skerum út laufabrauð í Litlu-Sandvík í eldhúsinu hennar mömmu. Svo renna jólin í garð með hátíðleika, áti, lestri og hvíld.

Laufabrauðsútskurður árið 2011.

Hvað er í jólamatinn? Hamborgarhryggur. Undanfarin 15 ár hef ég flest aðfangadagskvöld verið í Litlu-Sandvík og borðað við sama borð og þegar ég var lítill. Nú er vesen að finna uxahalasúpu og þarf klækindi til að finna þann forrétt. Þessi jól verða reyndar mjög ólík fyrri jólum. Ég verð ásamt Sibbu kærustu minni og mörgum afkomendum hennar á Tenerife. Það er bara spennandi og gott verður að komast í aðeins heitara andrúmsloft. Á aðfangadagskvöld verður borðað á veitingastað. Það verður aldeilis breyting á vananum.

Ef þú ættir eina jólaósk? Ja, mega þær vera tvær? Þá er það friður á jörðu og góð heilsa og hamingja til allra minna nánustu.

Fyrri greinUppfært í appelsínugula viðvörun
Næsta greinSetur jólatréð upp um miðjan nóvember