Út er komið í handhægri öskju námsefnið Lærum saman eftir Kristínu Arnardóttur sérkennara.
Í öskjunni eru fjórar sögubækur, verkefnabók og námsspil í fjórum spilastokkum. Sögubækurnar fjalla um þrjú systkini á aldrinum fimm til átta ára. Bækurnar heita Lærum að lesa, Lærum að skrifa, Lærum um tölur og Lærum að vera sjálfbjarga. Sögubækurnar sem hver um sig eru 44 til 76 blaðsíður eru ríkulega myndskreyttar og er þeim ætlað að vekja áhuga og löngun barna til að læra meira. Myndskreyttar hljóðbækur með öllum sögunum verða bráðlega allar aðgengilegar á vefnum www.lærumsaman.is
Verkefnabókin sem er 129 blaðsíður hefur að geyma fjölbreyttar æfingar, föndur, leiki og spil fyrir barnið að spreyta sig á með aðstoð fullorðins. Þar er að finna mörg fylgigagnanna sem tilheyra áður útkominni bók Kristínar, Ég get lesið, en koma nú í nýjum búningi.
Með námsspilunum gefst börnunum tækifæri á að spreyta sig á að para saman orð og myndir og að læra um reikning og meðferð talna. Í fyrsta stokknum eru stafabangsar með öllum íslensku bókstöfunum, í öðrum eru þrjár myndir fyrir hvern bókstaf. Í þeim þriðja eitt orð fyrir hverja mynd og í þeim fjórða einfalt samlagningarspil.
Þessi líflegu námsgögn nýtast jafnt á heimili sem í skóla. Þau eru tilvalin til notkunar með elstu árgöngum í leikskóla og yngstu árgöngum í grunnskóla.
Myndir í bókunum gerði myndlistarkonan Brimrún Birta Friðþjófsdóttir. Askjan er falleg gjöf til barns á aldrinum fimm til átta ára.
Námsefnið Lærum saman er sjálfstæð viðbót við handbækurnar Ég get lesið og Tölur og stærðir í leik og starfi eftir Kristínu. Þær handbækur eru áfram í góðu gildi en eru ætlaðar fullorðnum. Nýja námsefnið, Lærum saman er hins vegar ætlað börnunum sjálfum.
Kristín Arnardóttir höfundur námsefnisins Lærum saman á að baki langan starfsferil í leikskóla, sérskóla og almennum grunnskólum. Undanfarin ár hefur hún einkum starfað með börnum sem eru að hefja nám í grunnskóla. Kristín leggur áherslu á að áhugi barna á að læra sé virkjaður um leið og hann vaknar og að bæði foreldrar og fagfólk leggi þar hönd á plóg.
Þróunarsjóður námsgagna og Hagþenkir styrktu gerð efnisins.
Útgáfa og dreifing: www.lærumsaman.is og www.steinn.is
https://www.youtube.com/watch?time_continue=1&v=yap0RHzO0DA&feature=emb_title